26.9.2007 | 08:38
andsvör og almennar tilkynningar
ég flyt í dag, í íbúð við hermannplatz, verð þar í viku. þann tíma hef ég til að finna mér húsaskjól, helst fram í desember. stúlkan sem ætlaði að leigja mér hætti við. henni láðist bara að láta mig vita. sem er sosum allt í lagi. framboð á leiguhúsnæði ku vera allnokkurt hér í borg, og merkilegt nokk, alls ekki dýrt.
hulla mín. þú hafðir líklega rétt fyrir þér, þetta var líklega bara aumingjaskapur og ekkert annað. alla vega er ég mun hressari í dag. lét þó viskíið eiga sig og tók því bara rólega. hlakka líka til að sjá þig, en vil þó benda þér á að hér er mér sagt að lest til þín taki ekki sirka 4 tíma, heldur 8 stykki. legg það þó á mig með glöðu geði.
elsku harpa (sem og aðrir sem hugsanlega hafa reynt að hringja). síminn minn dó daginn sem ég kom út. þá meina ég dó dó. fínídskí. ég keypti mér fyrst nýjan síma í gær. sorrý.
og björn hlynur: við vitum báðir, og þú ífið betur en ég, að það ert ÞÚ sem alltaf ert veikur.
í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.9.2007 | 08:43
lasi
ég er lasinn. týpískt. ætlaði að kaupa mér stóra flösku af lýsi til að taka með mér út, en gleymdi því eins og svo mörgu öðru. veit ekki með útflutning á þessari eðalvöru. kannski ég finni hana í hillum hér.
ég vil nefnilega bara íslenskt lýsi. þannig er það nú bara. þjóðarrembingurinn nær þó ekki mikið lengra. ég til dæmis, verandi heima í íslandi, geng aldrei út úr verslun ef sá sem afgreiðir mig er ekki íslenskur.
óstjórnlega skemmtilegt að lesa um þess háttar hálfvitaskap á forsíðu fréttablaðsins í morgun. fyrsta skipti síðan ég kom út að ég kíkti á blaðið á netinu.
hef ákveðið að gefa íslenskum fjölmiðlum og fréttum frí um stundasakir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.9.2007 | 09:07
sól
þarna var ég í gær, og svona var veðrið í gær.
gaman að því.
en burtséð frá fallegu veðri, get ég ekki annað en hrósað happi yfir að hafa tekið ákvörðun um að koma hingað til berlínar. þótt dagarnir hér séu ekki orðnir margir, þá finn ég sterkt hvað þessi staður á vel við mig og mín störf. hér gilda einfaldlega önnur lögmál. tempóið er annað. hugsunarhátturinn annar. ekki að furða þótt hingað streymi listafólk hvaðanæva að úr heiminum til að sinna sínu.
í gær hitti ég börnin mín á skype. tölva sonar míns er með innbyggðri web kameru svo ég gat horft á þessar elskur meðan ég talaði við þau. ætla ekkert að lýsa því hve gott það var.
það er allt fínt að frétta. ég er að vinna. fullt að gerast.
kveðja heim í rokið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2007 | 11:20
hvítur fáni II
friðþægingartilraunir mínar við nútímamyndlist héldu áfram í gærkveldi, en þá fór ég á tvær opnanir. sú fyrri var sýning einhverrar Susanne Weirich í gallerýi magnusmuller. videoverk og ljósmyndir. afskaplega lítið sem ég náði að tengja við eitthvað þar og þurfti að bíta soldið fast á jaxlinn til að halda í burtu frasanum góða. þetta verður ekki auðvelt, en ég er allur af vilja gerður.
hinum megin götunnar gat að líta stóra byggingu, sem hýsir volksbuhne leikhúsið. það er verið að lappa upp á leikhús víðar en á íslandi, því byggingin er þakin stillönsum. ég notaði tækifærið og skrapp þangað. komst yfir bækling með dagskrá næstu vikur. þar má finna eitt og annað, meðal annars kemur í bæinn ítalskur leikhópur með verk sem ég debjúteraði sem leikari í á sínum tíma. fyrsta verk vesturports, diskópakk (disco pigs) eftir enda walsh. vís með að mæta m.a. þangað.
seinni myndlistaropnunin var í loop gallerýinu, verk eftir listamanninn goetz valien. risastór olíumálverk. þar fann ég að minnsta kosti eitthvað til að hugsa um. fann fyrir einhverju. ánægður með þetta eitthvað.
næsta vika er víst þétt setin af opnunum sem þessum. hér eru meðal annars íslendingar sem sýna í kling & bang galleríinu bráðlega. rakst á þá á loop. alls staðar erum við þessir íslendingar.
ég held samt að ég finni mér einhver kvöld annað að gera.
því eins og pósterinn góði segir:
HOW MUCH ART CAN U TAKE??
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.9.2007 | 09:27
hvítur fáni
eitt af markmiðum mínum hér í berlín er að taka nútímamyndlist í sátt. þar hef ég oft og iðulega dregið fram stóran stimpil þar sem á stendur: ÓMERKILEGT DRASL og þrykkt honum fast á nánast allt sem ég sé.
lítil virðing í því. bölvaður hroki og ekkert annað. vissulega þarf mér ekki að líka það sem ég sé. en þar með er ekki sagt að afurð listamannsins sem í hlut á sé drasl.
"who do you think you are?"
ég fór á myndlistarsýningu í gær, í galleríi sem heitir bethanien og þykir með þeim virðulegri hér í borg.
mér fannst ekki gaman. ég var ekki hrifinn. en ég skildi stimpilinn eftir heima.
meira fannst mér gaman í anddyri staðarins. þar var búið að líma fullt af límmiðum á glugga og veggi. skemmtilegt krot, skemmtilegar teikningar, skemmtilegar ljósmyndir og skemmtilegar setningar.
á einum þeirra stóð:
HOW MUCH ART CAN U TAKE??
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.9.2007 | 09:33
í berlín
það kom mér fullkomlega á óvart þegar flugstjóri vélarinnar til berlínar beið eftir mér við innganginn. þar var mættur minn kæri vinur egill ibsen, sem hafði að gamni sínu látið vera að segja mér að hann ætlaði sjálfur að skutla mér yfir hafið.
ég sat fram í hjá honum í flugtaki og lendingu, sem var ógleymanleg upplifun.
já, ég veit. ég lít ekkert sérstaklega vel út á þessari mynd, enda lítið sofið nóttina fyrir brottför, allt á síðustu stundu eins og mín var von og vísa.
"æ tóld jú só..."
20. september var stór dagur hjá okkur báðum, mér og agli, þó ívið merkilegri fyrir hr. ibsen. þegar hann kom heim beið hans kona með hríðir og þeim fæddist sonur í gær. innilega til hamingju!!
á flugvelli í berlín beið mín hins vegar vinkona mín amelia saul, ungur rithöfundur og myndlistarkona sem búið hefur í berlín í 2 ár. hún er búin að redda mér íbúð á besta stað í borginni, sem losnar þó ekki fyrr en eftir 2-3 daga. þangað til fæ ég að sofa á ikea sófanum hennar. rotaðist þar í nótt, þetta er kannski enginn alfreð, en slagar þó hátt í það.
annars er íbúð amelíu ákaflega skemmtileg. t.d. er baðkarið staðsett í eldhúsinu, eins og sjá má hér á myndinni. maður semsagt togar barasta í handfangið og... volla!
það held ég nú.
í gærkveldi sat ég svo með ameliu og vini hennar tod wodicka sem einnig er ungur rithöfundur búsettur hér og gaf nýlega út sína fyrstu skáldsögu, bæði í englandi, usa og þýskalandi. skemmtilegur náungi, og ekki spillti að í ljós kom að hann og konan hans eru miklir flight of the conchords aðdáendur.
ja ja. ég ætla að láta þetta duga í bili. þessi færsla aðallega gerð til að láta vita af mér. hér er ég og allt er gott.
alles gut ja ja.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.9.2007 | 09:40
10,9,8,7...
það má helst líkja aðdraganda brottfarar minnar við dæmigerða opnun á nýrri verslunarmiðstöð á íslandi. iðnaðarmennirnir alveg á skrilljón fram á síðustu sekúndu.
en svo er klippt á borðann. á réttum tíma. einstaka teppi eða dúkur eða parkett eða pípa kannski ekki fullkomlega á sínum stað, en enginn stórvægilegur skaði sem af því hlýst.
íbúðin sem ég hélt að væri mín, var svo ekki viss um að yrði mín, endaði með að verða ekki mín. sem er allt í lagi. hún var ekki ætluð mér. það bíður mín önnur miklu betri.
síðasti dagur fyrir brottför. ég hef ekki tíma til að blogga.
næsta færsla verður skrifuð í berlín.
stei tjúnd.
þið eruð frábær, öll, hver og hvar sem þið eruð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.9.2007 | 08:52
að dansa rétta dansinn
þetta er náttulega ekki spurning um limbó.
cha cha cha er dansinn.
takk fyrir allar fallegar kveðjur.
þetta er allt að koma.
(ef einhver er að velta fyrir sér hvort þetta sé ég á myndinni, þá er svarið: já. ákvað að breyta aðeins til á þessum merkilega tímapunkti í lífi mínu. þetta er semsagt hinn nýi þýski ég.)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.9.2007 | 08:50
limbó?
ég stóð mig að því um helgina að tala um að líf mitt væri soldið mikið í limbói þessa dagana. nú þegar ég huxa betur út í þessa líkingu verð ég að segja að ég fatta hana ekki alveg. nota hana bara af því að ég hef heyrt þennan frasa. hann hljómar vel. það gera l-in í orðunum.
þetta íbúðardæmi sem ég ræði í færslunni hér fyrir neðan er óttalegt fokk. ætlunin var að vera búinn að festa sér tilvonandi heimili áður en ég færi út. hvernig enginn sem hlut á að máli, fasteignasalan, eigendur íbúðarinnar og nágrannar þeirra, er að hafa fyrir því að láta mig vita hvernig málin standa er óþægilegt.
ég hef sýnt sjálfum mér, ekki í fyrsta sinn og eins vel og ég er farinn að þekkja sjálfan mig, ekki það síðasta, að ég er haldinn frestunaráráttu á háu stigi. setningin: "i told you so" var fundin upp til að bauna á mig, með tilheyrandi glotti. er alls ekki búinn að pakka, nokkuð langt frá því satt að segja, en hræki nú í lófa og í dag verður þetta massað, enda ekki annað í boði. síðasta stundin er komin. við feðgar sváfum nú í nótt í síðasta sinn í hellinum og kojan okkar verður skrúfuð í sundur á eftir. húsgögn flutt á brott seinni partinn.
um tilfinningalíf mitt ræði ég ekki hér, því eins mikið og mér þykir vænt um þá sem hingað koma og lesa, þá, með fullri virðingu, kemur þeim það ekkert við.
og svo flýg ég til útlanda á fimmtudagsmorgun klukkan 8. veit ekki hvað býður mín en er staðráðinn í að nýta ferðina í það sem til stóð í upphafi. get þóst vera kúl og látið eins og það örli ekki einu sinni á pínku kvíða fyrir þessu brölti mínu. en þeir sem þekkja mig best vita að það er jú bara feik.
líf mitt eins og limbó? ég í limbói... jú, ok. þetta meikar kannski alveg sens. eins og kallinn hér á myndinni get ég hæglega dottið á rassinn ef ég vanda mig ekki.
en rétt eins og kallinn á myndinni er ég að fara að smeygja mér undir prikið. léttilega.
brosi svo mínu breiðasta og hneigi mig.
takk fyrir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.9.2007 | 10:59
úbbs
ekki veit ég hvort þeir eða þær sem þetta lesa hafi nokkurn áhuga á því sem hér kemur. það skiptir ekki máli, ég þarf aðeins að tjá mig. um það sem hér kemur.
eins og allt ætlaði að falla í fullkomnar skorður, nei nei þá þurfti endilega að koma eitt stykki bobby í bátinn. og núna ruggar hann á báðar hliðar og ég bíð bara eftir að bobby þessi setjist á rassgatið og skipið kyrrist.
þannig er sumsé mál með vexti, að í ljós kemur að fólkið á efri hæðinni í húsinu sem íbúðin mín tilvonandi er í (vá, flott setning þetta)... það semsagt kemur í ljós að það hefur forkaupsrétt á íbúðinni sem ég er búinn að skrifa undir kaupsamning á.
OG... nú er það, allt í einu, og andstætt öll því sem það hefur áður sagt, að íhuga að nýta sér þennan forkaupsrétt. og ég verð bara að gera svo vel og hinkra eftir því að fá þessi mál á hreint. sem er náttulega bara frábært og ótrúlega gaman. finnst mér.
ég hefði líklega átt að sitja á mér í stað þess að vera að gaspra þetta og skrifa hér, í hástöfum og allt, að ég eigi íbúð. jæja, þetta fer eins og það á að fara.
í kvöld leik ég mína síðustu ÁST sýningu.
og eftir það verður mitt síðasta íslandsskrall í bili.
sé ykkur þar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)