15.12.2006 | 10:42
geðheilsa dags
sumir í kringum mig eru ekki að meika þetta myrkur úti. desemberdagur á íslandi er soldið eins og þunglyndissjúklingur, hann er að rembast við að komast á lappir í fleiri klukkutíma, þegar það loks tekst hellir hann sér upp á feitan kaffibolla, kíkir í blöðin, dundar sér eitthvað í sirka klukkutíma og í þennan heila klukkutíma njótum við birtunnar af honum en svo fer hann að geispa, honum líst ekki á blikuna og ákveður að láta þetta bara eiga sig. skríður aftur uppí og fer að sofa. félagar hans kvöldið og nóttin taka völdin á ný en þau eru einmitt langt því frá að vera í sama gír og dagur. eru þvert á móti í miklu stuði, þetta er þeirra tími.
ég er líka í stuði. geðheilsa dags er ekkert að bögga mig, mér finnst skammdegið og myrkrið bara kósí, alla vega í jólalýstum desember. djamm í kvöld þokkalega.
mig langar að benda því fólki sem ekki hefur fylgst með vinum mínum í sigtinu á skjá einum á að það er ótal margt vitlausara en að dánlóda þáttunum ókeypis inn á tölvuna sína og horfa á það sem þessir snillingar hafa fram að færa. í þeirri litlausu flóru sem íslenskt sjónvarpsefni... uuuu, ég er ferlega illa að mér í garðyrkju, það á betur við að nota eitthvað annað til að segja það sem ég ætlaði að segja, sem er nokkurn veginn þetta: íslenskt sjónvarpsefni, það litla sem framleitt er, er svo týpískt og leiðinlegt. sigtið er frábær og stórfyndin tilraun til að breyta því. síðan hans frikka er hér til hliðar, þar sjáið þið hvernig þið nálgist þetta. tjekk it át.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2006 | 10:05
illa hönnuð vélmenni
ég get ekki að því gert, mér finnst þetta fyrirbæri, íslendingar, oft frekar fyndið. mér liggur við að segja kjánalegt. alla vega alveg einstaklega fyrirsjáanlegt. nú eru að koma jól. og þessi prógrammeruðu vélmenni sem við erum förum af stað, enn og aftur, með fátæktarfrasana góðu. af því nú er aftur kominn tími. nú eru að koma jól.
við tölum um fólkið sem þarf á stuðningi mæðrastyrksnefndar að halda, fólk sem á vart til hnífs og skeiðar. núna koma reyndar til sögunnar í fyrsta sinn öll fátæku börnin á íslandi sem lifa ekki mannsæmandi lífi vegna peningaleysis foreldra og forráðamanna. og við leyfum okkur líka, af því það eru að koma jól, að líta okkur fjær, til fátæka fólksins í öðrum heimsálfum, sem segja má réttilega að hafi það enn meira skítt en fátæka fólkið hér heima.
þessi umræða lifir sirkabát til aðfangadags. þá er kominn tími til að velta sér uppúr vellystingunum, borða á sig gat dag eftir dag, fólki líður svo jólavel að því fer hreinlega að líða illa, ekki af skorti eða fátækt heldur af hreinni ofneyslu á mat og drykk. við hneppum efstu tölunni og leggjumst upp í með góða bók. prumpum hressilega og fussum yfir lyktinni. svo koma áramót og nýtt ár. og við minnumst ekki orði á fátækt fólk, hvorki hér né annars staðar fyrr en að ári liðnu, því þá koma jólin aftur.
skemmtilegar fréttirnar sem fylgja öllu fátæktartalinu, nefnilega þær að kaupgleði okkar vekur athygli víða um heim. aðstandendum toyota umboðsins og ikea verslunarinnar er t.a.m. klappað hressilega á bakið, meira en það, þeir eru hreinlega klappaðir upp með húrrahrópum, fyrir það sem verður að teljast yfirnáttúrulegar sölutölur.
ég held að vélmenni hafi það fram yfir okkur íslendinga að langtímaminni þeirra er mun þróaðra en okkar. vélmenni með okkar minnisskort eru úreld. þeim má henda á haugana.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2006 | 10:35
ekki dauður enn
sko. það er langt því frá ætlunin að breyta þessu í eitthvað bloddí sjálfshjálparblogg, lifðu lífinu lifandi, áttaðu þig á því hvað þér finnst gott og finndu þannig kjarnann í sjálfum þér jarí jarí ja... samt sem áður kemur hér ein lítil færsla sem flokkast má undir slíkt að einhverju leyti...
ég er nefnilega að átta mig á því að ef maður brennur fyrir einhverju, þá á maður að kýla á það, ganga í málið. ég hef um nokkurt skeið haft í maganum leiksýningu sem ég veit að verður algjörlega frábær. ég hyggst leikstýra verkinu, fá til liðs við mig vini mína og félaga, alla snillingana í kringum mig á öllum sviðum og búa til alveg hreint magnaðan skít. ég hef nefnt þetta verkefni við "innsta kjarnann" og fengið einróma til baka: gerðu þetta maður! þetta er frábært!
en nú berast fregnir af því að einhverjir úti í bæ hafi augastað á verkinu - já þetta er nefnilega þekkt verk - og hyggist klessa því á leiksvið og klúðra því bigg tæm eins og flestu öðru sem upp fer í leikhúsum, af því það kann þetta enginn nema ég og mínir, af því við erum besta leikhús í heimi (hey! maður verður að vera kokkí! maður á að vera kokkí!! kokkí er kúl... þykist einhver ætla að banka í öxlina á mér núna?) og nú er sumsé verið að athuga hvort ég geti ekki reddað réttinum á undan þessum hinum. af því ég var ekki búinn að afgreiða það dæmi. bara búinn að tala, ekki búinn að gera viðeigandi ráðstafanir.
það eru engar ýkjur í orðum andra snæs um hugmyndirnar sem svífa í loftinu, og um mikilvægi þess að ná þeim og gera að sínum. oft er þetta bara "fyrstur kemur fyrstur fær". og þá er aðalatriðið að vera fyrstur, hoppa hátt, grípa þéttingsfast og með tilþrifum, lenda, líka með tilþrifum, standa upp og byrja að vinna.
við spyrjum að leikslokum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.12.2006 | 10:15
ég dey á morgun
ég las inngang að bók í gærkveldi. bókin er þykk, rituð af virtum breskum leikrita- og skáldsagnahöfundi og ég geri fastlega ráð fyrir að hún sé skemmtileg, þótt ég hafi bara komist í gegnum stuttan formálann ennþá.
þar segir skáldið frá því að hann hafi greinst með banvænan sjúkdóm árið 1999. sú vitneskja fékk hann til að hugsa hlutina upp á nýtt. hann tók sér penna í hönd og skrifaði og skrifaði, teiknaði, málaði og las eins og hann ætti lífið að leysa. honum héldu engin bönd, allar "stíflur" losnuðu og öll hugsun um hvað væri rétt og hvað ekki, hvað hlyti náð og hvað ekki, hvarf eins og dögg fyrir sólu. hann gekkst undir læknismeðferð vegna sjúkdómsins og allnokkru seinna fékk hann þær fréttir að hann hefði unnið bug á hinum illkynja vágesti. eftir stóð hann, alheilbrigður, með heilmikið efni í höndunum. undir eins fóru gömlu spurningarnar að láta aftur á sér kræla og hann tók að blaða í handritinu til að sjá hvað þar mætti betur fara og hvað mætti missa sín. hvað væri kúl og hvað ekki. en blessunarlega hafði lífsreynsla hans og hugsanlegur dauði eitthvað skilið eftir sig og hann ákvað að láta allt flakka.
af hverju er ég að segja ykkur þetta? jú, af því að mér fannst þetta merkilegt. þrátt fyrir að hafa sosum heyrt og lesið eitthvað þessu líkt áður, þrátt fyrir að ástandið hafi jafnvel litið ískyggilega út hjá manni sjálfum, virðist það gleymast ansi fljótt hvað hver dagur er dýrmætur. hvað stíflurnar og tálmarnir sem við sjáum fyrir framan okkur eru í raun sillí.
er rétta leiðin til að lifa fyrir alvöru kannski sú að ímynda sér að maður eigi skammt eftir ólifað? sé með banvænan sjúkdóm? fer maður þá kannski fyrst að fatta hvað þetta blessaða líf hefur upp á að bjóða og getur, ef maður vill, verið helvíti skemmtilegt?
strákurinn er þokkalega djúpur í dag. samt ekki.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2006 | 10:15
rétta dressið
dóttir mín kallaði á mig inn í svefnherbergi í morgun. þar stóð hún klædd í þau föt sem ég hafði týnt til fyrir hana, og horfði ábúðarfull á mig. "finnst þér þetta smart?" spurði hún, og ég þurfti ekkert að hafa fyrir því að segja eitthvað, svarið stóð breiðletrað og undirstrikað framan í henni. og satt að segja var ég sammála henni, þetta var alveg laust við að vera smart. ég er bara svo vitlaus að halda að þegar maður er sex ára skipti smartheit ekki svo miklu máli. þegar maður er sex ára stelpa er maður bara sæt, hvernig sem á það er litið. alla vega ef þú ert dóttir mín.
hún er greinilega ekki til í að standa í svona vitleysu með pabba sínum mikið oftar, því hún fór að benda mér á mjög augljósa hluti, leiðbeina mér: "þessi rauði bolur hérna sem þú lætur mig vera í innan undir. hann er of stór og stendur alveg uppúr og passar engan veginn við þessa grænu peysu." svo kom þessi snilld: "krakkarnir eiga eftir að halda að ég sé orðin eitthvað geðveik!!!"
einhvern tíma myndi ég segja henni að hætta þessari bölvuðu vitleysu og drífa sig fram að fá sér að borða. en mér fannst þetta bara svo frábært að ég gekk strax í að reyna að leysa málið. saman fundum við föt sem sluppu til og ég geri ráð fyrir, vona alla vega heitt, að hún sé á þessari stundu stödd í skólanum hress og kát í stað þess að vera dregin í spennitreyju upp í sjúkrabíl og brunað á klepp fyrir jafn fáranlega múnderingu og of stóran rauðan bol undir grænni peysu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.12.2006 | 19:18
slembilukka
sonur minn fékk skemmtilegt sms í dag. það var svona:
Czesc Marcinku gratulacje ci za to co uczyniles wszyscy cieszymy sie wytrwaj w tym zawsze patrz co mozesz miec a nie stracic zyczymy Cl tego c. Danusia w .Jacek i Sebastia n.Zostan z Panem Bogiem pa.
ég veit að það eru líkur, alls ekki miklar en þó mögulegar, að skilaboðin hafi farið í skakkt númer. en getur ekki verið að sonur minn hafi erft jafn mikið af heppni minni og hann fékk frá mér fegurðina? að með textanum sé verið að gratúlera hann af því að hann hafi unnið fullt af peningum í... tjah, þetta gæti hugsanlega verið einhvers konar alheims símahappdrætti... skipulagt í austur-evrópu einhvers staðar... kennt við einhvern sebastian kannski... konan hans hét danúsía... og þau tvö þekkt fyrir sinn magnaða búggí dans... voru í svona búggí pan hóp... þó ég átti mig ekki alveg á því hvað það kemur símahappdrætti við... og hver í fjáranum er þá þessi jacek? stjórnandi hópsins eða..? alla vega, eitthvað í þessa átt finnst mér vera líkleg skýring.
nú erum við feðgar alls ekki lepjandi dauðann úr skel, en við erum þokkalega til í búbótina sem þessum vinningi fylgir. annars er það af nígeríska vini mínum að frétta að það er ekkert að frétta. hann hlýtur að fara að hafa samband. þessir nígerar eru víst alveg pottþéttir í öllu svona.
sjitt hvað þetta verða geðveik jól. við erum að tala um kreisí dýrar gjafir frá mér.
Bloggar | Breytt 10.12.2006 kl. 09:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.12.2006 | 10:22
ég byrjaði snemma...
stundum eru tilviljanirnar alveg merkilegar. nú er ég sumsé að vinna í leikverki um ástina, eins og fram hefur komið. og maður hefur ósjálfrátt látið hugann reika aftur á bak í tíma og hugleitt hvernig maður sjálfur hefur tekist á við tilfinningar tengdar ástinni, tilfinningar sem manni þykir hvað vænst um. og hvað gerist svo? jú ég hitti stúlkuna sem er upphaf alls, hvorki meira né minna...
í gær héldu bekkjarfélagar dóttur minnar bingó í skólanum. ég mætti galvaskur til að snúa hjólinu og kalla upp þær tölur sem drógust. þá birtist skyndilega í dyrunum fyrsta ástin mín (við vorum 7 ára, já minn byrjaði snemma). við litum hvort á annað, brostum kankvíslega og heilsuðumst. rétt eins og það hefði allt saman gerst í gær, en ekki að þarna vorum við með börnin okkar sem nú eru á svipuðum aldri og við vorum þegar við kynntumst. og þau saman í bekk.
samband okkar verður að sjálfsögðu ekki kallað eldheitt en ég var þokkalega skotin í henni samt. ætlaði örugglega að eyða með henni ævinni, ef ég þekki sjálfan mig rétt. nú býr hún í einbýlishúsi í setberginu í hafnarfirði með manni og börnum, einmitt í sömu götu og barnsmóðir mín býr með sínum manni og þeirra barni og okkar börnum.
ég get státað mig af því að ég hef greinilega strax í upphafi haft smekk fyrir fallegum konum, þessi fyrsta ást mín ber þess vitni. nú bíð ég bara eftir að stelpan sem ég var skotinn í þegar ég var 9 ára rekist á mig af tilviljun. ég man reyndar ekki eins vel eftir henni, efast reyndar um að ég þekkti hana í sjón. ég man þó að hún átti bróðir sem mér fannst massa leiðinlegur en lék mér við í tíma og ótíma til að geta verið í kringum systur hans.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.12.2006 | 10:07
gott og vont
ákveðið tilefni, sem ég ætla ekki að nefna frekar því það er engum til góðs, hefur fengið mig til að hugsa um mikilvægi þess vonda. "vonda" í merkingunni lélegt. "lélegt" í merkingunni það sem manni finnst ekki góð list. jebbs, úbbúbbúbb, listamaðurinn er farinn að tala um list, og þau ykkar sem þolið ekki orðið verðið bara að sætta ykkur við það að ég sleppi því endrum og eins að tala um niðurgang, skítugar nærbuxur, karaókí eða aðra hluti sem tilheyra hinu "lága plani". þið tilheyrið líklega hópnum sem merkilegir "lista"menn kalla "bol" en ég kýs að kalla því undarlega nafni "venjulegt og eðlilegt fólk".
en semsagt, það er að mínu mati ákaflega hollt og gott að upplifa eitthvað sem manni finnst vont. kostir þess verða þeim mun meiri ef maður gefur sér tíma til að hugleiða hvað það er nákvæmlega sem manni finnst svona vont. það hjálpar manni nefnilega að skilgreina hvað það er sem manni finnst gott. og ef maður veit hvað manni finnst gott, þá þekkir maður sjálfan sig betur en ella. og ef maður er listamaður, veit maður frekar hvað maður vill gera í vinnu sinni og hvað ekki.
þessi ótrúlega speki á samt ekkert bara við um listamenn, sem þið venjulega fólkið kjósið oft að kalla "helvítis fífl" en ég kýs að kalla "skrýtið og skemmtilegt fólk". sum ykkar horfið mikið á sjónvarp (sumir meira en góðu hófi gegnir, án þess að mér komi það rassgat við) eða farið í bíó endalaust oft. þið hafið sterkar skoðanir á því sem er gott og vont þar. af hverju finnst ykkur það góða vera gott og það vonda vera vont? hvað með bækur og/eða tónlist? megi hver og einn svara fyrir sig.
ég er auðvitað ekkert að tala um að liggja í þessum hugsunum endalaust þannig að maður komi engu öðru í verk. þetta þarf ekki að taka nema nokkrar mínútur af þeim dýrmæta tíma sem hverju og einu okkar er gefinn.
og fyrst endemis vitleysa eins og þessi tekur ekki meiri tíma, hlýtur hún að mega lifa, þótt ekki sé nema sem vinsamleg tilmæli.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.12.2006 | 18:17
hommar
heyrði nýtt orð yfir samkynhneygða karlmenn í dag. það spratt af vörum eins af öldruðu samleikurum mínum. hann var einmitt að rifja upp þegar árni johnsen, sá merkilegi maður sem nú er aftur á leið inn á þing, lét skoðun sína á samkynhneygðu fólki í ljós með hnefahöggum á þjóðhátíð fyrir nokkru.
og orðið er: "lekkeringarmaður"!
mér finnst samt "sódó", með sterkri áherslu á sérhljóðana alltaf best. svo dásamlega mikil hneykslun í því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.12.2006 | 10:28
ástin mín
ég og gísli erum að skrifa söngleik um ástina. um ástina og gamalt ástfangið fólk. það er skemmtilegt. ýmislegt sem rifjast upp í þessari vinnu. hugurinn hefur til dæmis reikað til tímans þegar maður var ástfanginn unglingur. ekkert smávegis sem maður varð ástfanginn þá. allt var upp á líf og dauða. eins og það er kannski alltaf, ef maður er sannarlega ástfanginn. samt, upp á líf og dauða?? er það ekki full langt gengið hjá fullorðnu fólki? eða hugsar maður kannski alltaf eins og unglingur þegar ástin er annars vegar? þið vitið, fyrstu vikurnar og mánuðirnir, eða árin ef maður er heppinn. sumir hugsa jafnvel og láta eins og ástfangnir unglingar alla ævi. aðrir horfa með aðdáun á það fólk. og börnin þeirra hrista hausinn og láta eins og þau skammist sín fyrir foreldrana en undir niðri eru þau svo stolt af því að eftir öll þessi ár haga þau sér eins og krakkavitleysingar. í ást sinni á hvoru öðru. aðrir fara aðrar leiðir. eldast og þroskast saman í virðingu og kærleika. er það ekki orðað einhvern veginn þannig?
ég ætla ekki að gera lítið úr unglingnum sem ég var og þeim tilfinningum sem ég bar í brjósti á þeim tíma. hins vegar fékk ég þá hugmynd að nota sögurnar af mér og hvernig mér leið og hvernig ég lét í uppistandskafla af einhverju tagi, sem gæti hugsanlega notast við skemmtilegt tækifæri. held það gæti orðið alveg hillaríus. á fallegan hátt sko.
hvað hét uppistandið hans jóns gnarr? "ég var einu sinni nörd..." ég gæti kannski samið sjóv sem heitir "ég var einu sinni...ástfanginn"? nei, það gengur ekki. ég hef ekki bara orðið ástfanginn einu sinni.
"ég var einu sinni... ástsjúkur?"
"að vera eða ekki vera ástfanginn..."
veit ekki alveg... þarf líklega að útfæra þetta aðeins betur...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)