4.1.2007 | 10:34
plöggi plöggi plögg
frumsýningin er víst 19. janúar en ekki þann 18. eins og ég tilkynnti í gær. en það er bara betra, því 19. er á föstudegi og miklu skemmtilegra að frumsýna þá!
fyrir þá sem eru að mæspeisast má benda á að FORELDRAR er komin með sína eigin mæspeis síðu. HÉR er hún.
það er kominn inn nýr kafli í hinni mögnuðu framhaldssögu nágranninn. ef einhver á erfitt með að finna linkinn þá er hann hérna til hliðar vinstra megin, undir TENGLAR. nema hvað?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.1.2007 | 17:31
saga
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.1.2007 | 11:39
FORELDRAR
það styttist og styttist í frumsýningu!
ef svo ólíklega vill til að einhver viti ekki hvað ég er að tala um: kvikmyndin FORELDRAR verður frumsýnd í Háskólabíó þann 18. janúar. klíkan fær náttulega miða á frumsýningu, með því skilyrði þó að fólk verði duglegt að láta orðið berast ef það er ánægt. aðra bið ég vinsamlegast að skrópa ekki og borga uppsett verð.
það er komin heimasíða. hún er HÉR.
þetta kann að hljóma sjálfhverft, en við vesturportarar vöðum ekki peningafljótið og reynum því að nýta okkur alla möguleika til kynningar. við erum með gott stöff og viljum að fólk komi og sjái.
meira um þetta síðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.1.2007 | 09:05
jæja
pabbi minn heitinn sagði jæja. hann var jæja maður. þegar slátrun stóð yfir á hænsnabúinu í sveitinni þar sem við bjuggum, kom fólk af næstu bæjum og hjálpaði til. mamma eldaði ofan í mannskapinn í hádeginu, gott ef það var ekki stundum kjúklingur á boðstólum. auðvitað kom svo kaffi eftir matinn, sem sötrað var yfir spjalli, alveg þar til pabbi sagði jæja. þá var kominn tími til að standa á fætur, rölta upp í hús og halda áfram.
nú er einmitt kominn tími á jæja. þótt svo einhverjir kvarti yfir því hvað nýafstaðnir hátíðisdagar lentu óheppilega lítið á virkum dögum, þá finnst mér persónulega komið gott af hangsinu og er til í að fara að standa upp og slátra hænsnum.
mér líst feykivel á nýtt ár. ég er stemmdur fyrir því, eins og einhverjir segja. ég hef kosið mér að ævistarfi að búa til, skapa, fyrir aðra að njóta. hugmyndir mínar eru hænur sem ég útbý til neyslu, svo ég haldi aðeins lengra í þá átt. hænan og eggið og allt það. dauði, upphaf, hin eilífa hringrás. og list er ekkert annað en kjúklingur, franskar og kokkteilsósa. sem er einmitt herramannsmatur. hvað er til dæmis betra við þynnku?
ójá elskurnar. maltappelsínblandið er búið í könnunni og öxin er komin á loft.
passið ykkur bara.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2007 | 02:11
mál málanna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2006 | 14:23
nýárskveðja
elsku þórunn, auður, þormar, ísabella sól, eyja og rakel maría! nú er komið að því sem við fullorðna og gáfaða fólkið - við sem höldum þessu öllu gangandi, eða lifum alla vega í þeirri vissu að við gerum það - köllum áramót. fæðingarárið ykkar heldur nú heim til sín, þangað sem við köllum fortíð, kyssir okkur á kinnina, kveður og flýgur á brott og nýtt ár kemur í staðinn.
við verðum alltaf soldið kreisí á þessum tíma og sprengjum sprengjur og skjótum upp flugeldum fyrir fleiri hundruð milljónir. sem er að vissu leyti gott þar sem peningarnir renna í starfsemi hjálparsveita sem koma okkur til hjálpar þegar við förum okkur að voða eða eigum í vanda vegna hamfara, sem af einhverjum ástæðum virðast fara fjölgandi með tímanum. að sumu leyti er þetta því í lagi en að öðru leyti kannski ekki því vissulega má spyrja sig hvort ekki væri nær að eyða einhverju af þessum peningum í nytsamari hluti. það eru nefnilega til lítil börn eins og þið sem hafa það ekki eins gott og voru ekki eins heppin með start. ég ætla samt ekki að syngja þennan sálm frekar, því áramót eru hátíðleg stund og óþarfi að spilla góðum fagnaði. ég vona bara að þið verðið ekki of skelfd í kvöld þegar lætin byrja.
ég óska ykkur og foreldrum ykkar, öðrum börnum á öllum aldri og foreldrum þeirra gæfu og gleði á árinu sem brátt rennir í hlað og ber nafnið 2007 (sums staðar, í öðrum löndum bera ár dýranöfn sem er óneitanlega skemmtilegra og meira stuð, en þið verðið að sætta ykkur við að svona er þetta hjá okkur). megi framtíð ykkar allra verða sem björtust.
hér fyrir ofan er mynd af ofsalega flínkum kalli. þið eigið eftir að heyra um hann síðar. hann var mjög gáfaður, ekki aðeins af því hann vissi svo ótrúlega mikið og gat reiknað ósköpin öll af tölum, heldur ekki síður af því hann gerði sér grein fyrir því að í rauninni vissi hann ekki neitt.
tómas og stefanía arna biðja að heilsa.
ástarkveðja frá víkingi frænda.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.12.2006 | 10:04
helber skáldskapur um fjölskyldu úti í sveit
þau eru búin að fara með borðbænina. en stemmingin við matarborðið er eitthvað þvinguð og skrýtin og dóttirin skilur ekki alveg hvað er í gangi og horfir spurnaraugum á foreldra sína. hún hélt að nú væri allt í lagi. fólkið á blaðinu kom í heimsókn, vinir pabba í vinnunni komu líka og það voru teknar myndir þar sem þau brostu öll breitt af allri vitleysunni sem búið er að segja. af hverju þá núna, þegar þau sitja saman fjölskyldan og borða og allir aðrir farnir, brosa foreldrar hennar ekki? af hverju er aftur allt orðið svona skrýtið? mamma er sorgmædd í framan. pabbi horfir til baka á dóttur sína og reynir að brosa til hennar en hún sér að þetta er ekki alvöru bros. loks rífur pabbi þögnina.
"ástin mín... þetta er alveg dásamlegt kjöt hjá þér."
ekkert svar.
"ástin mín... er ekki allt í lagi hjá okkur?"
enn ekkert svar.
"ástin mín... við verðum að standa saman. það hefur aldrei verið jafn mikilvægt og nú."
loks opnar mamma munninn.
"standa saman? hversu lengi? þú sagðir að öldurnar myndu lægja með þessari blaðagrein. svo heyri ég bara úti í bæ að það sé hlegið enn hærra og meira af okkur en áður, og að fólk sé vissara en nokkru sinni fyrr um að við séum með allt niður um okkur... að þú sért með allt niður um þig. hversu lengi á ég að láta eins og ekkert sé? láta eins og það sé ekki tittlingurinn á þér sem dinglar þarna á myndinni og að það sé satt sem þú segir að þinn sé í raun miklu stærri þegar hann er það bara alls ekki. helst að þessi sé í stærra lagi. greinilegt að þú hefur verið í essinu þínu þegar þetta var tekið. ég bara get ekki..."
og hún brestur í grát og tárin falla ofan í sósuna yfir steikinni.
"þú veist vina mín hversu mikið er í húfi. allt sem ég hef gefið þér. allt okkar ríkidæmi hverfur eins og dögg fyrir sólu ef við ekki stöndum þétt saman. við þurfum bara að bíða aðeins lengur, í smástund í viðbót, þar til fólk gleymir. þú veist hvernig þetta virkar hér. eftir smástund í viðbót hafa allir gleymt öllu saman og við höldum áfram eins og ekkert hafi í skorist."
"ég veit bara ekki hvort ég get beðið stundinni lengur..." segir mamma og rýkur frá borðinu. hún hefur varla snert á kjötinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.12.2006 | 15:20
the family of arts and drama
við erum svo ótrúlega listræn lítil fjölskylda.
gærdagurinn fór að hluta til þannig fram að ég sat í eldhúsinu, las í bók og drakk kaffibollann minn á meðan dóttir mín teiknaði myndir í gríð og erg, þar á meðal þessa hér fyrir neðan.
þetta er mynd af mér liggjandi í kojunni, lesandi í bók og hugsandi um dreka.
á meðan hún sat við þetta var sonur minn í tölvunni að dunda sér við að búa til litla teiknimynd, en hún fylgir einmitt líka þessari færslu.
hér fyrir ofan má sjá þessar elskur. réttur titill á myndina er líklega nútímabörn, já eða bláskjáir.
ég get þó huggað mig við að þau eru blessunarlega ekki bara að þiggja, þau eru líka að skapa og gefa.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.12.2006 | 12:18
markverð orð
úr sjónvarpsviðtali við sigurbjörn einarsson biskup, þá einstöku manneskju, sýnt í sjónvarpinu á jóladag:
Okkar lífskröfur hafa vaxið alveg gífurlega. Nú eru væntingarnar orðnar svo miklar vegna þess að möguleikarnir virðast vera svo takmarkalitlir og svo er svo mikið framboð, svo mörg tilboð í lífinu.
Og á fólk erfitt með að standast þau tilboð?
Já ég er hræddur um það. Kröfurnar til mannfélagsins, til þjóðfélagsins eru orðnar mjög miklar.
Erum við sjálfhverf?
Já, það er nú það sem ég er að ýja að. Við mótumst þannig ósjálfrátt, við verðum dálítið sjálfhverf.
Er lífsgæðakapphlaupið að sliga samfélagið?
Það er óhætt að segja að það eru viss hættumerki sem allir hljóta að þekkja. Ég nefndi nú tilboðin, á allt það sem er brugðið upp sem möguleikum og jafnvel nauðsynlegum hlutum. Og þetta virðist ala á ófullnægju, óánægju, og svo kannski bregst eitthvað inni í manni sjálfum eða einhverjar væntingar um ytri fullnægju ganga ekki eftir. Og þá er uppgjöfin ískyggilega nærri. Slík óánægja sem veldur þunglyndi og jafnvel vonleysi um að lifa. Við vitum það að læknar hafa verulega áhyggjur af heilsufarsvandamálum sem augljóslega hafa andlegar orsakir. Vaxandi streitusjúkdómar, lífsstílsvandamál kalla læknar það. Það er að segja, lífsstíllinn er að sliga okkur.
...
Hefur sorgin tilgang?
Hún fær tilgang. Eins og annað sem guð er látinn sjá um. Með eindregnum vilja og trausti til hans.
Þú áfellist ekki guð fyrir sorgina?
Það get ég ekki gert. Því aðeins missir maður að maður hafi eignast. Maður hefur þegið. Maður getur engu af sér skilað sem maður hefur ekki þegið. Og öllu hlýtur maður að skila af sér, og lífinu síðast. Það skiptir bara öllu að vita af hverjum maður þiggur og hvert maður skilar hlutunum. Og í rauninni þá er ekkert tekið frá manni, því guð geymir það allt. Hann tekur ekkert aftur sem hann hefur gefið manni. En hann tekur að sér að ávaxta það, og það er gott að vita það.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.12.2006 | 18:04
jól
þau komu jú eins og alltaf, en ekki hvað, og með þeim þetta skap sem einkennist af ró og friði í hjartanu.
jól.
ég fékk margar fínar og frábærar gjafir. læt nægja að nefna hér litla stuttmynd sem ég fékk frá syni mínum, þar sem hann hafði á laun fengið nokkra af bestu vinum mínum, systkini mín (mínus siggi sem er á akureyri) og mömmu til að tjá sig í kameru um mig. svo settist tómas sjálfur líka fyrir framan vélina og arna litla var þar líka. ég fór bara næstum að grenja yfir öllu saman. svona lagað hrærir hörðustu hjörtu og mitt telst nú frekar meyrt viðkomu svo þið getið rétt ímyndað ykkur.
jóladagur er búinn að vera dásamlega afslappandi. hangikjötið að austan bragðaðist vel að vanda og nú situr maður bara við kertaljós og dundar sér.
síðasta vika ársins gengin í garð. viðburðaríkt ár. gott ár. mjög gott ár.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)