fyrirsagnir og lítil leiðrétting

finnst engum nema mér þessi fyrirsögn, tekin af visir.is, vera sérkennileg:

Stjórn Verndar vonar að viðmót nágranna dofni ekki.

hvernig dofnar viðmót?

hvað finnst ykkur þá um þessa í fréttablaðinu í dag:

Kona í skolpi sakar Grund um siðleysi.

!!!

að öðru:

einhverjir af dyggum lesendum framhaldssögunnar virðast hafa tekið því sem svo að síðasti kaflinn sem settur var inn sé í raun sá síðasti í sögunni. þennan misskilning leiðrétti ég hér með. það eru 2 kaflar eftir. og ég þykist, ennþá alla vega, þótt ég viti ekki hvenær ég hef tíma til þess, ætla að skila þeim á sinn stað áður en ég flýg út í fyrramálið.


kominn kafli

kafli kominn.

afsök

eins og ég sagði fyrir stuttu er gaman að standa við orð sín. 

ég hef enn ekki getað sent frá mér nýjasta kafla nágrannans. er að æfa söngleik og þykist í þokkabót vera framleiðandi af bíómynd , sem fer á hátíð til hollands um næstu helgi (og ég með henni) og alls konar sem þarf að gera. ég biðst innilega afsökunar á þessu.

ég læt mér þetta þó ekki að kenningu verða og gef hér með út þá yfirlýsingu að áður en ég tek á loft  áleiðis til rotterdam nk fimmtudag verða lokakaflar sögunnar allir komnir inn og lokapunktur sleginn. 

svo er bara spurning hvort maður standi við orð sín...

áfram ísland!


að halda um beislið

afar krassandi næsti kafli sögunnar minnar er svo gott sem tilbúinn á skjali í tölvunni minni. en ég hef tekið mjög meðvitaða ákvörðun um að sleppa honum ekki lausum á síðuna fyrr en í kvöld.

 


hitt og annað

það er alltaf gaman að geta staðið við orð sín og það hef ég nú gert með því að birta nýjan kafla í framhaldssögunni.

frumsýning gekk vonum framar, gestir yfir sig hrifnir og fjórar stjörnur bæði í mogganum og fréttablaðinu gefa vonandi aðsókn byr undir báða vængi. lets feis itt, krítík hefur áhrif. stjörnugjöf selur. að einhverju leyti í það minnsta. held ég alla vega. 

í gærkveldi, þar sem ég lá í sófanum og hvíldi lúin bein (það tekur jú helling á að skemmta sér) stóð ég sjálfan mig að því að skella upp úr yfir spaugstofusketsum. það er ekki auðvelt að viðurkenna slíkt en mér fannst meðferð þeirra á byrgismálinu djörf og kröftug. og útlisting á árshátíðum bankanna, fjármögnuðum af vöxtum og yfirdrætti okkar eymingjanna var það líka. 

ætlaði svo að splæsa í dvd en nennti ekki fram úr og horfði á norton og stiller og hana þarna gull gull gullfallegu leikkonu í mynd sem flokkast undir hugljúfa gamanmynd. og hafði bara soldið gaman af.

svona var semsagt ástandið á mér í gærkveldi. en nú er kominn nýr dagur með nýrri heilsu og nýjum ævintýrum...  


góðar fregnir og verri

ég er bæði með góðar fréttir og slæmar.

þær góðu eru nú kannski engar fréttir, þannig séð. búinn að vera að tyggja þetta ofan í ykkur með reglulegu millibili, síðast í gær. nefnilega að í kvöld verður kvikmyndin FORELDRAR frumsýnd og það er mikil tilhlökkun í lofti.

vondu fréttirnar byggja á þeim væntingum mínum að þarna úti sé fólk, etv fleiri en mig grunar, sem hefur verið að lesa framhaldssöguna mína og haft gaman af. ég hef alla vega fengið ánægjuleg komment og er þakklátur fyrir þau. en vondu fréttirnar eru sumsé þær að sökum frumsýningarinnar, og af því að ég ætla að sletta ærlega úr klaufunum í kvöld og leyfa mér að vera þunnur og latur á morgun, þá kemur næsti kafli ekki inn fyrr en sunnudaginn 21. janúar. er ekki réttilega hægt að kalla þetta óviðráðanlegar orsakir?

hafið það gott í dag, og bændur, til hamingju með daginn. 


gott

sonur minn vaknaði upp fyrir allar aldir í morgun, fór fram í eldhús og bakaði vöfflur fyrir okkur feðga í morgunmat. bara af því honum leið þannig. 

og úti er sól og á morgun er frumsýning. og 14. kafli kom inn seint í gærkveldi.  


bílar

ég var 3 korter úr hafnarfirði til reykjavíkur í morgun. vona að enginn sé að eyða tíma sínum í að bölsótast út í að strætó haldi ekki áætlun á þessum tíma, hvernig í ósköpunum á hann að geta það í annarri eins traffík?

hvernig læt ég? það fer er enginn heilvita maður í strætó. strætó er bara fyrir útlendinga og ógæfufólk. aðrir fara á sínum eigin bíl. 

talandi um þetta. fyrir allnokkru síðan bloggaði ég um fólk í strætó. í gær óku þau framhjá mér brosmilda parið sem þar er nefnt, komið á sinn eigin bíl og gott ef ekki brosandi hringinn. vissulega stórt stökk í hinum íslenska metorðastiga og ég vil hér með óska þeim innilega til hamingju.

næsti kafli NÁGRANNANS er svo gott sem tilbúinn, en sökum anna (og umferðarteppu) hef ég ekki náð að færa hann inn. kemur í dag.

 


hvað ungur nemur

sonur minn er 13 ára. hann er í 8. bekk eins og það heitir. nú er hann í miðsvetrarprófum og pabbinn er að reyna að hjálpa til, fara með honum í gegnum námsefnið. og í sumum fögum skil ég ekki rass. ég les upphátt upp úr bókunum og geri allt til að láta röddina hljóma sannfærandi og eins og þetta sé allt saman mjög augljóst og liggi í augum uppi. en sonur minn sér í gegnum mig. sér tómið í svipnum og glottir.

svo er maður að fara fram á góðar einkunnir. segir honum að hann verði nú að standa sig.

hvað er maður að þykjast vera heimspekingur? já, eða skáld?

það er kominn nýr kafli í framhaldssögunni. setti hann inn rétt í þessu. 


kántdán

FORELDRAR2maður getur farið að telja niður.

á föstudaginn kemur hún fyrir sjónir almennings.

ég er ekki kvíðinn. ég er bara spenntur...

 

 

nýr kafli í nágrannanum fór inn í morgun. ég get ekki sagt hvenær lokapunkturinn verður sleginn en þó er ljóst að það styttist...

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband