15.2.2007 | 10:27
kvöldvaka
það er kvöldlestur á mínu heimili þessa dagana, rétt eins og í baðstofunni forðum. í stað þess að fara með rímur les ég annað bindi í sögu eragons drekariddara fyrir mig og son minn. við erum báðir þokkalega spenntir.
það má sosum ýmislegt segja um þessa miklu sögu (mér skilst að það sé enn einn doðranturinn eftir áður en ævintýrinu lýkur) og ekki allt gott. en víst er hún spennandi, og það bregst ekki að sonur minn andmælir hástöfum þegar ég loka bókinni á kvöldin. ég er náttulega svo ótrúlega ábyrgðarfullur að ég tapa ekki sjálfum mér og les frameftir öllu. nógu erfitt samt að koma drengnum á lappir á morgnana.
ég mæli með þessu. þetta er gaman.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.2.2007 | 10:07
jón og þjóðarsáttin
jón framsóknarformaður. fínn kall. eflaust. en það er með jón eins og suma, að ég er bara ekki viss um að hann sé á réttum stað. ég trúi bara ekki öðru en það séu að renna tvær grímur á einstaka félaga hans, varðandi formanninn sem átti að bjarga hópnum, rífa hann upp úr öldudalnum. gott ef jón sjálfur hugsar ekki endrum og eins með sér: "ó sjitt."
það vantar allt kung fu í jón. hann er of slakur. þar sem hann stendur í pontunni og talar... nú er ég ekki vel að mér í ættfræði, en er jón eitthvað skyldur heimi heitnum steinssyni, þeim ágæta manni?
og nú er taktleysið orðið svo algengt hjá flokknum að ég get ekki ímyndað mér annað en hann noti það í slagorðunum í vor: "taktlaus en traustur" - "taktleysi og mess, ekkert stress"... nei ég segi svona. það nýjasta er náttulega hin svokallaða þjóðarsátt.
nú ætla ég ekki að ráðast á innihald þeirrar sáttar, það hafa aðrir séð um það. en það er augljóslega taktlaust af tveimur ráðherrum framsóknar að setjast niður og sjóða saman plagg um jafn eldfimt efni, plagg sem öskrar jafnmikið á andmæli og raun ber vitni, og kalla það þessu merkingarþrungna nafni. þjóðarsátt?
þau jón og jónína vita jafn vel og við hin að hér eru afar skiptar skoðanir um umhverfis- og virkjunarmál. ég leyfi mér að segja að þetta sé með heitari málefnum komandi kosninga.
hvernig dettur þeim annað eins í hug?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.2.2007 | 10:11
máttur orðsins
ég datt inn á popptívi um helgina. þar var í sýningu dæmigert músíkvídeó með rapplagi, svo vafasamt að ég hugsaði sem svo: þetta myndband má EKKI koma fyrir augu dóttur minnar, sem er sex ára og dreymir um að verða söngkona og dansari þegar hún verður stór.
þetta er engin ný speki. músíkmyndbönd eru oft svo hressilega nálægt því að vera klám að maður spyr sig hver sé í raun munurinn.
nema hvað, að annað hvert orð í textanum var þaggað niður, textinn í laginu við myndirnar fékk ekki að heyrast. ég geri ráð fyrir að þar hafi rapparinn talað mjög fjálglega um hvað hann ætlaði að gera við konuna sem sungið var um, í hvaða stellingum hún fengi að kenna á því... eitthvað þess háttar býst ég við. alla vega er þar eitthvað sem ekki má heyrast.
orðin mega ekki heyrast. en það er allt í lagi að myndirnar sjáist.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.2.2007 | 11:34
skilaboð til undirritaðs
það sem ég hef að segja í dag, er kannski ekki ætlað neinum nema sjálfum mér. en það er líka allt í lagi, og ef einhver skilur þessi skilaboð til sjálfs mín og getur nýtt þau á einhvern hátt þá er það bara bónus.
það sem skiptir máli er það sem ég hef, en ekki það sem ég hef ekki og hausinn á mér reynir svo oft að fullvissa mig um að mig skortir.
allt þetta góða fólk í kringum mig, fjölskylda og vinir, það skiptir máli.
það sem ég er að vinna að þessa stundina, það skiptir máli.
góð heilsa, þrátt fyrir reykingarnar sem fara vonandi að hætta og hreyfingarleysið sem fer vonandi að snúast í andstæðu sína, hún skiptir máli.
dagurinn í dag, hann skiptir máli.
það að einhver lesi þetta og hugsi eitthvað misjafnt um mig, skiptir ekki nokkru máli.
skapti ólafsson er í græjunum. tónleikar í salnum í kópavogi, diskur sem hann af vinsemd gaukaði að mér. dibbidibbidibbdibbidibb (sem við breyttum í "typpið typpið mitt typpið þitt" í leiksýningunni brim).
já. þetta er sirkabát það sem mig langaði að segja sjálfum mér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.2.2007 | 15:00
sunnudagur
sunnudagar eru góðir dagar.
ég er að fara í kaffi, gulrótarköku og pönnukökur til mömmu minnar.
mamma mín er góð kona.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.2.2007 | 15:07
þorrablót
í kvöld hitti ég góða vini á þorrablóti, sem við, af okkar einskæra spontaníteti, blésum til með skömmum fyrirvara.
ég hlakka mikið til.
eða eins og ónefnd stúlka myndi líklega orða það:
vei vei vei!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.2.2007 | 16:58
ísland í dag
fyndið með þessar endalausu uppstokkanir hjá stöð 2. enn á ný er komið nýtt ísland í dag. nú á að taka á því! það er komið nýr litur í bakgrunninn, blátt í staðinn fyrir rautt. steingrímur ólafsson er kominn inn til að hrista upp í þessu, að öðru leyti er þetta sama fólkið. ég horfði á fyrsta þátt hins "nýja" ísland í dag og þetta er nákvæmlega sama stöffið. sem mér finnst bara fínt, því ég kunni ágætlega við hann eins og hann var.
hvaða endalausa panikk er þetta alltaf hreint? er enginn séns að slappa bara aðeins af og leyfa fólki að byrja að venjast og fara að meta það sem er í boði? þó ekki sé nema einhverja mánuði?
verst finnst mér að morgunþátturinn var tekinn af dagskrá. en ég er líka morgunnörd sem vakna snemma...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.2.2007 | 10:32
æfing í ást
lukkunar pamfíll. er það ekki tilvalin þýðing á "lucky bastard"? maður er orðinn svo gegnsýrður af ensku tali allt í kringum mann endalaust (sonur minn talar t.d. stundum meira í enskum frösum en á íslensku) að maður stendur sig stundum að því að hugsa á því tungumáli. alla vega, það sem ég vildi sagt hafa er að ég er soddan lukkunar pamfíll!
maður getur ekki þakkað nógu oft og mikið fyrir þær undarlegu beygjur og króka sem lífið manns tekur. og allt það fólk sem á vegi manns verður og maður verður heiðurs aðnjótandi að vinna með og kynnast.
núna er einmitt eitt slíkt ævintýri í gangi. stórsöngleikurinn ÁST sem æfður er af kappi í borgarleikhúsinu. samferðafólk mitt þar er flest allt í eldri kantinum, fólk sem hefur brallað svo ótalmargt og kallar sannarlega ekki allt ömmu sína. og ég á erfitt með að þurrka burt sólskinsglottið af andlitinu á mér. það er svo gaman í vinnunni.
ég og gísli örn vinur minn, og leikstjóri verksins, erum semsagt krakkarnir í hópnum. já og pálmi músíkmæstróinn okkar, ekki ætla ég að gera hann gamlan í skrifum mínum hér, þótt vissulega sé kappinn reynslumikill.
hér að ofan má sjá þau ómar og hönnu mæju æfa dúett úr verkinu. maður hefur nú ekki heyrt hönnu syngja mikið (hún á þó orginal útgáfuna af gegnum holt og hæðir með þursunum) en konan er algjörlega brilljant söngkona, og fær að láta það ljós skína í sýningunni.
og svo varð ég að skella inn mynd af pálma sigurhjartar, sem er ekkert annað en snillingur.
fleiri myndir koma síðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2007 | 10:14
breiðavík II
ég las í fréttablaðinu í morgun um skoðanir lektors í hagnýtri fjölmiðlun á umfjöllun kastljóssins um breiðuvík. hún talar um "tilfinningaklám" og að sjónvarpið sé afþreyingarmiðill sem geti í raun ekki tekið á málum sem þessu.
ég viðurkenni að þetta orð, "tilfinningaklám", kom upp í hugann þegar ég sá einn af þeim mörgu kastljósþáttum sem fjallað hafa um þennan ljóta stað. ekki af því að mér fannst þátturinn bera þess merki, heldur spurði ég sjálfan mig: ætli þetta sé það sem sumir kalla "tilfinningaklám". ég heyrði nefnilega fyrir einhverju síðan einhvern tala um hina verðlaunuðu kompás þætti, og hvernig umsjónarmenn þar klæmdust miskunnarlaust á tilfinningum fólks. og þá fór ég að velta þessu fyrir mér og hvað mér finnst um slíkar fullyrðingar.
ég hef ekki fullmótað skoðun mína á tilfinningaklámi í sjónvarpi. en ég er ekki sammála áðurnefndum lektor. sjónvarpið er sterkur fjölmiðill. en það er ekki eingöngu ætlað til afþreyingar, það færir mér líka fréttir. og það er tilvalið til að draga fram í dagsljósið hluti sem þessa. umræðan verður fyrir vikið miklu háværari og um leið verða líkur á úrbótum meiri. ég er þess vegna líka ánægður með þá ákvörðun kastljóssins að láta ekki einn þátt duga um efnið, heldur að hamra á því þátt eftir þátt. eins og við vitum öll þá þjáist hin íslenska þjóð heiftarlega af gleymsku á mjög háu stigi, og endurtekningin er jú ein leið til að muna (nú tala ég af reynslu sem leikari).
nú er óvíst hvað getur mögulega bætt því fólki sem hér á í hlut skaðann. en hér er á ferðinni víti til varnaðar, sem gerir stöðu barnanna okkar í dag að umhugsunarefni og kemur vonandi í veg fyrir að þess háttar meðferð endurtaki sig.
og ef einhverjum er misboðið, getur viðkomandi auðveldlega skipt yfir á skjá 1 eða sirkus og horft á tilfinningaklám framið af leikurum. það er jú bara í þykjustunni, ekkert að marka og allir glaðir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.2.2007 | 10:57
breiðavík
að sjá sjálfan konung þjófanna, þennan mann sem svo margar fjörur hefur sopið, brotna saman og bresta í grát við tilhugsunina eina.
fullorðnir menn með minningar grafnar dýpst í hugskotum sínum. brotin sjálfsvirðingin á víð og dreif. lífinu eytt í að tjasla henni saman.
og spurningarnar sem þeir voru fyrir löngu hættir að spyrja.
loks nú, eins og fyrir kraftaverk, vill einhver hlusta.
en fást einhver svör?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)