markverð orð

úr sjónvarpsviðtali við sigurbjörn einarsson biskup, þá einstöku manneskju, sýnt í sjónvarpinu á jóladag: 

Okkar lífskröfur hafa vaxið alveg gífurlega. Nú eru væntingarnar orðnar svo miklar vegna þess að möguleikarnir virðast vera svo takmarkalitlir og svo er svo mikið framboð, svo mörg tilboð í lífinu.

Og á fólk erfitt með að standast þau tilboð?

Já ég er hræddur um það. Kröfurnar til mannfélagsins, til þjóðfélagsins eru orðnar mjög miklar.

Erum við sjálfhverf?

Já, það er nú það sem ég er að ýja að. Við mótumst þannig ósjálfrátt, við verðum dálítið sjálfhverf.

Er lífsgæðakapphlaupið að sliga samfélagið?

Það er óhætt að segja að það eru viss hættumerki sem allir hljóta að þekkja. Ég nefndi nú tilboðin, á allt það sem er brugðið upp sem möguleikum og jafnvel nauðsynlegum hlutum. Og þetta virðist ala á ófullnægju, óánægju, og svo kannski bregst eitthvað inni í manni sjálfum eða einhverjar væntingar um ytri fullnægju ganga ekki eftir. Og þá er uppgjöfin ískyggilega nærri. Slík óánægja sem veldur þunglyndi og jafnvel vonleysi um að lifa. Við vitum það að læknar hafa verulega áhyggjur af heilsufarsvandamálum sem augljóslega hafa andlegar orsakir. Vaxandi streitusjúkdómar, lífsstílsvandamál kalla læknar það. Það er að segja, lífsstíllinn er að sliga okkur. 

... 

Hefur sorgin tilgang? 

Hún fær tilgang. Eins og annað sem guð er látinn sjá um. Með eindregnum vilja og trausti til hans.

Þú áfellist ekki guð fyrir sorgina?

Það get ég ekki gert. Því aðeins missir maður að maður hafi eignast. Maður hefur þegið. Maður getur engu af sér skilað sem maður hefur ekki þegið. Og öllu hlýtur maður að skila af sér, og lífinu síðast. Það skiptir bara öllu að vita af hverjum maður þiggur og hvert maður skilar hlutunum. Og í rauninni þá er ekkert tekið frá manni, því guð geymir það allt. Hann tekur ekkert aftur sem hann hefur gefið manni. En hann tekur að sér að ávaxta það, og það er gott að vita það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

vonandi hafa sem flestir hlusta á hann og þá meina ég sko HLUSTAÐ.. 

eva (IP-tala skráð) 27.12.2006 kl. 16:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband