14.12.2006 | 10:05
illa hönnuð vélmenni
ég get ekki að því gert, mér finnst þetta fyrirbæri, íslendingar, oft frekar fyndið. mér liggur við að segja kjánalegt. alla vega alveg einstaklega fyrirsjáanlegt. nú eru að koma jól. og þessi prógrammeruðu vélmenni sem við erum förum af stað, enn og aftur, með fátæktarfrasana góðu. af því nú er aftur kominn tími. nú eru að koma jól.
við tölum um fólkið sem þarf á stuðningi mæðrastyrksnefndar að halda, fólk sem á vart til hnífs og skeiðar. núna koma reyndar til sögunnar í fyrsta sinn öll fátæku börnin á íslandi sem lifa ekki mannsæmandi lífi vegna peningaleysis foreldra og forráðamanna. og við leyfum okkur líka, af því það eru að koma jól, að líta okkur fjær, til fátæka fólksins í öðrum heimsálfum, sem segja má réttilega að hafi það enn meira skítt en fátæka fólkið hér heima.
þessi umræða lifir sirkabát til aðfangadags. þá er kominn tími til að velta sér uppúr vellystingunum, borða á sig gat dag eftir dag, fólki líður svo jólavel að því fer hreinlega að líða illa, ekki af skorti eða fátækt heldur af hreinni ofneyslu á mat og drykk. við hneppum efstu tölunni og leggjumst upp í með góða bók. prumpum hressilega og fussum yfir lyktinni. svo koma áramót og nýtt ár. og við minnumst ekki orði á fátækt fólk, hvorki hér né annars staðar fyrr en að ári liðnu, því þá koma jólin aftur.
skemmtilegar fréttirnar sem fylgja öllu fátæktartalinu, nefnilega þær að kaupgleði okkar vekur athygli víða um heim. aðstandendum toyota umboðsins og ikea verslunarinnar er t.a.m. klappað hressilega á bakið, meira en það, þeir eru hreinlega klappaðir upp með húrrahrópum, fyrir það sem verður að teljast yfirnáttúrulegar sölutölur.
ég held að vélmenni hafi það fram yfir okkur íslendinga að langtímaminni þeirra er mun þróaðra en okkar. vélmenni með okkar minnisskort eru úreld. þeim má henda á haugana.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.