ég dey á morgun

ég las inngang að bók í gærkveldi. bókin er þykk, rituð af virtum breskum leikrita- og skáldsagnahöfundi og ég geri fastlega ráð fyrir að hún sé skemmtileg, þótt ég hafi bara komist í gegnum stuttan formálann ennþá.

þar segir skáldið frá því að hann hafi greinst með banvænan sjúkdóm árið 1999. sú vitneskja fékk hann til að hugsa hlutina upp á nýtt. hann tók sér penna í hönd og skrifaði og skrifaði, teiknaði, málaði og las eins og hann ætti lífið að leysa. honum héldu engin bönd, allar "stíflur" losnuðu og öll hugsun um hvað væri rétt og hvað ekki, hvað hlyti náð og hvað ekki, hvarf eins og dögg fyrir sólu. hann gekkst undir læknismeðferð vegna sjúkdómsins og allnokkru seinna fékk hann þær fréttir að hann hefði unnið bug á hinum illkynja vágesti. eftir stóð hann, alheilbrigður, með heilmikið efni í höndunum. undir eins fóru gömlu spurningarnar að láta aftur á sér kræla og hann tók að blaða í handritinu til að sjá hvað þar mætti betur fara og hvað mætti missa sín. hvað væri kúl og hvað ekki. en blessunarlega hafði lífsreynsla hans og hugsanlegur dauði eitthvað skilið eftir sig og hann ákvað að láta allt flakka.

af hverju er ég að segja ykkur þetta? jú, af því að mér fannst þetta merkilegt. þrátt fyrir að hafa sosum heyrt og lesið eitthvað þessu líkt áður, þrátt fyrir að ástandið hafi jafnvel litið ískyggilega út hjá manni sjálfum, virðist það gleymast ansi fljótt hvað hver dagur er dýrmætur. hvað stíflurnar og tálmarnir sem við sjáum fyrir framan okkur eru í raun sillí.

er rétta leiðin til að lifa fyrir alvöru kannski sú að ímynda sér að maður eigi skammt eftir ólifað? sé með banvænan sjúkdóm? fer maður þá kannski fyrst að fatta hvað þetta blessaða líf hefur upp á að bjóða og getur, ef maður vill, verið helvíti skemmtilegt?

strákurinn er þokkalega djúpur í dag. samt ekki. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband