rétta dressið

dóttir mín kallaði á mig inn í svefnherbergi í morgun. þar stóð hún klædd í þau föt sem ég hafði týnt til fyrir hana, og horfði ábúðarfull á mig. "finnst þér þetta smart?" spurði hún, og ég þurfti ekkert að hafa fyrir því að segja eitthvað, svarið stóð breiðletrað og undirstrikað framan í henni. og satt að segja var ég sammála henni, þetta var alveg laust við að vera smart. ég er bara svo vitlaus að halda að þegar maður er sex ára skipti smartheit ekki svo miklu máli. þegar maður er sex ára stelpa er maður bara sæt, hvernig sem á það er litið. alla vega ef þú ert dóttir mín.

hún er greinilega ekki til í að standa í svona vitleysu með pabba sínum mikið oftar, því hún fór að benda mér á mjög augljósa hluti, leiðbeina mér: "þessi rauði bolur hérna sem þú lætur mig vera í innan undir. hann er of stór og stendur alveg uppúr og passar engan veginn við þessa grænu peysu." svo kom þessi snilld: "krakkarnir eiga eftir að halda að ég sé orðin eitthvað geðveik!!!" 

einhvern tíma myndi ég segja henni að hætta þessari bölvuðu vitleysu og drífa sig fram að fá sér að borða. en mér fannst þetta bara svo frábært að ég gekk strax í að reyna að leysa málið. saman fundum við föt sem sluppu til og ég geri ráð fyrir, vona alla vega heitt, að hún sé á þessari stundu stödd í skólanum hress og kát í stað þess að vera dregin í spennitreyju upp í sjúkrabíl og brunað á klepp fyrir jafn fáranlega múnderingu og of stóran rauðan bol undir grænni peysu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bahahaha

Hildigunnur Magnús.. (IP-tala skráð) 11.12.2006 kl. 15:25

2 identicon

Greinilegt ad eg hef skilid eitthvad eftir mig a tessu heimili :)

Eva (IP-tala skráð) 11.12.2006 kl. 15:52

3 identicon

Arna stjarna ber viðurnefni sitt með rentu!

Berglind Hermannsdóttir (IP-tala skráð) 12.12.2006 kl. 17:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband