8.12.2006 | 10:22
ég byrjaði snemma...
stundum eru tilviljanirnar alveg merkilegar. nú er ég sumsé að vinna í leikverki um ástina, eins og fram hefur komið. og maður hefur ósjálfrátt látið hugann reika aftur á bak í tíma og hugleitt hvernig maður sjálfur hefur tekist á við tilfinningar tengdar ástinni, tilfinningar sem manni þykir hvað vænst um. og hvað gerist svo? jú ég hitti stúlkuna sem er upphaf alls, hvorki meira né minna...
í gær héldu bekkjarfélagar dóttur minnar bingó í skólanum. ég mætti galvaskur til að snúa hjólinu og kalla upp þær tölur sem drógust. þá birtist skyndilega í dyrunum fyrsta ástin mín (við vorum 7 ára, já minn byrjaði snemma). við litum hvort á annað, brostum kankvíslega og heilsuðumst. rétt eins og það hefði allt saman gerst í gær, en ekki að þarna vorum við með börnin okkar sem nú eru á svipuðum aldri og við vorum þegar við kynntumst. og þau saman í bekk.
samband okkar verður að sjálfsögðu ekki kallað eldheitt en ég var þokkalega skotin í henni samt. ætlaði örugglega að eyða með henni ævinni, ef ég þekki sjálfan mig rétt. nú býr hún í einbýlishúsi í setberginu í hafnarfirði með manni og börnum, einmitt í sömu götu og barnsmóðir mín býr með sínum manni og þeirra barni og okkar börnum.
ég get státað mig af því að ég hef greinilega strax í upphafi haft smekk fyrir fallegum konum, þessi fyrsta ást mín ber þess vitni. nú bíð ég bara eftir að stelpan sem ég var skotinn í þegar ég var 9 ára rekist á mig af tilviljun. ég man reyndar ekki eins vel eftir henni, efast reyndar um að ég þekkti hana í sjón. ég man þó að hún átti bróðir sem mér fannst massa leiðinlegur en lék mér við í tíma og ótíma til að geta verið í kringum systur hans.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.