8.11.2006 | 10:15
er ég rasisti?
ég heyrði í fréttum í gær einn af þingmönnum frjálslyndra segja að dagurinn sem frjálst flæði erlends vinnuafls inn í landið var leyft, væri "svartur dagur" í sögu íslensku þjóðarinnar. og þá rifjaðist upp þegar ég heyrði fyrst í vor um þetta frjálsa flæði. ég man að það setti að mér nokkurn ugg við þær fréttir.
nú er ég ekki sammála því sem frjálslyndir hafa látið út úr sér og sett í blaðagreinar um útlendinga. ég er ekki sammála því að ákvörðunin hafi verið aðför að íslenskri verkalýðsstétt, hvað þá að ég ætli að fara að saka fólk af erlendum uppruna um alla glæpi sem eiga sér stað á götum borgarinnar. þá finnst mér skrif jóns magnússonar í blaðinu í dag um fordóma og staðreyndir og hin "öfgafullu" trúarbrögð einmitt bera vott um það sem hann þvertekur fyrir í sömu grein að sé málið, nefnilega fordóma. hvað í ósköpunum er það þá sem ég óttast?
jú, viðtal í sama fréttatíma við konu sem vinnur hjá alþjóðahúsinu og sér um innflytjendamál og hagsmuni "nýbúa" staðfestir það sem ég fór að hugsa. þar kom fram að stjórnvöld hafa frá því þessi umdeildi dagur leit dagsins ljós ekki eytt krónu í innflytjendamál. það er búið að stofna mikið af nefndum, áreiðanlega um 10 stykki sagði konan, og þar fer fremst í flokki hin svokallaða innflytjendanefnd. flott nafn á nefnd, sem ekki hefur ekki fengið neitt fjármagn í starfsemi sína. um leið eru fjölmargir af þeim útlendingum sem hingað leita og vilja búa til lengri eða skemmri tíma algjörlega í lausu lofti og vita ekki rass um réttindi sín og skyldur. konan benti á að það er engum skylt, samkvæmt íslenskum lögum, að gera þessu fólki grein fyrir hver þessi réttindi og skyldur eru. á meðan snýst það óöruggt í hringi, veit ekkert hvert það á að leita með sín mál.
það er ekki búið að eyða krónu, segir hún. og þetta er alveg týpískt og þetta er það sem ég var ekki bara hræddur um heldur alveg viss um að myndi gerast. það er ekki nóg að fara bara hálfa leið, það þarf að klára dæmið! fjölmenningarsamfélag er fallegt orð og í þannig samfélagi er ég til í að búa. en það er lítið gaman að bjóða gesti velkomna ef híbýlin eru á hvolfi, allt á rúi og stúi, veitingarnar litlar sem engar og gestaherbergið óvart tæplega fokhelt.
mig kemur í hug orð sem ágætur maður í minni stétt sagði eitt sinn við mig. við unnum saman að sýningu og á opnunardaginn stuttu áður en gestir streymdu inn sagði ég sísona: "jæja, þá er ekki aftur snúið. þetta fer svo bara eins og það fer." svarið hans hefur fylgt mér síðan, en hann sagði, greinilega hugsandi um hvort verk okkar væri nógu gott: "jájá, þetta fer auðvitað eins og það fer. en það sem við gerum sem listamenn verður alltaf að vera brilljant!"
þetta er eitthvað sem ráðamenn þjóðarinnar mættu oftar gera að sínu.
Athugasemdir
Þar sem ég ferðast um heiminn þveran í vinnunni, hef ég tekið eftir því að hægt er að alhæfa lauslega um einkenni hverrar þjóðar. T.d. ef haldinn yrði alþjóðlegur fagnaður þá myndi ég EKKI fá Þjóðverja til að sjá um skemmtiatriðin og ég myndi EKKI fá Breta til að sjá um matseldina einnig myndi ég ALLS EKKI fá Íslendinga til að sjá um skipulagninguna.
Það er semsagt þjóðareinkenni okkar að hafa engann metnað og/eða skilning á skipulagningu, hvort sem það eru lagasetningar, íbúamál eða umferðarmál.
Egill Ibsen (IP-tala skráð) 8.11.2006 kl. 10:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.